Hér í innsveitum Borgarfjarðar er nóg um að vera til afþreyingar.


Áshestar

Hestaleigan Áshestar er staðsett á bænum Stóri- Ási í Borgarfirði sem er í aðeins 9km fjarlægð frá hinum vinsæla ferðamannastað Húsafelli. Áshestar bjóða upp á 1-1 1/2 langa reiðtúra með leiðsögn í fallegri náttúru meðfram bökkum Hvítár.
Opið er alla daga frá 10:00 – 18:00
Fyrir frekari upplýsingar og pantanir vinsamlegast hafið samband i síma 847-7051 eða í gegnum netfangið : ashestarhorserntal@gmail.com

 

Hraunfossar og Barnafoss

Hraunfossar (4 km frá Hótel Á) eru ein fallegasta náttúruperla Íslands. Ótal blátærar, fossandi lindir koma undan Hallmundarhrauni, renna í Hvítá og mynda Hraunfossa á um 1 km löngu bili. Falla þar fram í Hvítá ótal bunur og fossar, milli kletta og skógarkjarrs, allan ársins hring. Barnafoss er þrenging í Hvítá og er þekkt fyrir brýr og steinboga sem áin hefur markað í bergið með ógnarkrafti sínum. Svæðið var friðlýst árið 1987.

 

Langjökull og Eiríksjökull

Eiríksjökull er einhver fegursti jökull landsins og hann ásamt Langjökli blasa við frá Hótel Á. Við sólsetur á góðviðrisdögum er einstaklega fallegt að horfa á jöklana “loga” og njóta útsýnisins héðan frá hótelinu. Eiríksjökull er 1675 m á hæð og u.þ.b. 40 ferkílómetrar að flatarmáli. Langjökull er annar stærsti jökull Íslands, um 950 km² að stærð og hæsti punktur hans í 1.355 m hæð. Hægt er að fara í skipulagðar ferðir á Langjökul.

 

Víðgelmir, Surtshellir og Stefánshellir

Víðgelmir (12 km frá Hótel Á) er einn stærsti hraunhellir í heimi. Hann hefur að geyma fallegar ísmyndanir, dropsteina og hraunstrá. Hann er í Hallmundarhrauni, u.þ.b. 2 km suðaustur af bænum Fljótstungu . Mannvistarleifar sem fundust í hellinum eru varðveittar í Þjóðminjasafninu og eru að líkindum frá víkingaöld. Hellirinn hefur verið friðaður síðan 1993 og er innganga í hellinn eingöngu leyfð með leiðsögn. Leiðsögumenn frá Fljótstungu bjóða upp á ferðir í hellinn.

Surtshellir (24 km frá Hótel Á) er kunnasti hellir á Íslandi, 1310m langur. Seinfarið er um hellinn því í botni hans er víða stórgrýtt urð. Margar sagnir eru til um mannvistir í Surtshelli. Innsti hluti hellisins er kallaður Íshellir en þar mynduðust ísstrýtur. Íshellir greiðfærasti og fegursti hluti hellisins. Beinahellir er afhelllir út frá fremsta hluta Surtshellis.

Stefánshellir er í beinu framhaldi af Surtshelli til norðausturs. Í honum eru miklir ranghalar og hvelfingar , hann er botnsléttur og auðveldastur hellanna í Hallmundarhrauni yfirferðar. Heildarlengd er 1970 metrar.

 

Deildartunguhver

Deildartunguhver í Reykholtsdal er vatnsmesti hver Evrópu. Úr hverunum koma 180 l af u.þ.b. 100° heitu vatni á sekúndu og er mesta uppstreymið undan 5 m háum leirbakka sem nefndur er ýmist Hverahóll eða Laugarhóll. Vatni úr hvernum er dælt til Borgarness og Akraness þar sem það er notað til upphitunar húsa. Hverinn er friðaður. Við hverinn vex sjaldgæf tegund Skollakambs og er jurtin friðuð. 

 

Reykholt

Reykholt er einn þekktasti sögu- og minjastaður á Íslandi. Þar bjó um skeið Snorri Sturluson sagnaritari (1179-1241) og þar var hann veginn. Í Reykholti hefur verið kirkja og prestsetur um aldabil. Þar er að finna einhverjar merkustu fornminjar hér á landi, Snorralaug. Frá Reykholti er elsta skjal íslenskrar kirkju sem til er, Reykholtsmáldagi, talið frá síðari hluta 12. aldar. Snorrastofa – Menningar- og miðaldasetur, stofnað í minningu Snorra Sturlusonar er í Reykholti. Snorrastofa veitir ferðamönnum þjónustu og fræðslu í Gestastofu á jarðhæð Reykholtskirkju og þar er sýning um Snorra , auk þess sem boðið er upp á styttri og lengri kynningar um miðaldir, Snorra og Reykholt. 

 

Húsafell

Húsafell (10 km frá Hótel Á) – Perla milli hrauns og jökla – er fjölsóttur ferðamannastaður. Þar er einstök veðursæld og umhverfi fallegt. Í Húsafelli er fjölbreytt þjónusta við ferðamenn en þar er m.a. verslun, veitingastaður, sundlaug, tjaldsvæði og golfvöllur. Fallegar gönguleiðir. Á Húsafelli býr listamaðurinn Páll Guðmundsson. Víða í landi Húsafells má sjá höggmyndir listamannsins og við Gamla bæinn er vinnustofa hans.